Login Tools

Bryndís Baldursdóttir

Eftir að ég fór að æfa hlaup af einhverri alvöru fór ég að velta fyrir mér hversvegna ekki væru gerðar
stílæfingar í mínum hlaupahóp. Ég átti dóttur sem æfði frjálsar og hún var endalaust í einhverjum
fyndnum sprettum. Sparka í rass. Hné upp að höku. Stór skref. Framstig......

Fyrst hélt ég að það væri sérstök stefna hjá þjálfaranum mínum að sleppa þessu atriði en svo fór ég
að spyrjast fyrir og komst að því að yfirleitt voru stílæfingar ekki gerðar hjá fullorðnum.

Svo fór ég að grúska og lesa mér til og gróf þetta upp :
Hér áður fyrr (fyrir kannski svona 20-30 árum síðan) voru hlaupaæfingar fullorðinna einstaklinga
ekkert frábrugðnar æfingunum sem krakkarnir voru að gera og breytingar á hlaupastíl til að ná betri
árangri var viðurkennt atriði í hlaupaheiminum.

Svo komust hlaup í tísku sem olli því að fleiri og fleiri einstaklingar sem ekki komu úr
íþróttaheiminum vildu læra að hlaupa. Með þessari fjölgun spruttu upp fleiri og fleiri þjálfarar sem
heldur ekki höfðu neina svakalega íþróttamenntun og höfðu ekki alist upp á
hlaupabrautinni. Afleiðingarnar voru þær að hlaupastílskennsla missti marks, menn voru að reyna
að kenna eitthvað sem þeir kunnu sjálfir ekki nógu vel sem endaði í því að fólk beitti sér vitlaust og
meiddi sig í stað þess að bæta sig.

Þekkt vandamál var að fólk meiddist í baki vegna þess að það misskildi leiðbeiningar um að halla sér
fram á hlaupum og í stað þess að setja hallann á allan líkamann beygði það hrygginn.
Þá varð til ein mítan enn sem hefur tröllriðið hlaupaheiminum síðan : Það borgar sig ekki að vera að
breyta hlaupastíl fullorðinna einstaklinga vegna þess að það eykur svo meiðslahættuna. Með
hlaupastílskennslunni fóru svo stílæfingarnar í ruslafötuna.

Þar með losnuðu þjálfarar undan því að þurfa að læra og tileinka sér kenningar um hlaupastíl og gátu
hætt að hafa áhyggjur af því að annaðhvort væru þeir ekki nógu góðir kennarar eða lærlingarnir ekki
nógu klárir til að kennslan skilaði sér.

Þetta viðhorf hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Auðvitað er ég ekkert með neina
hlaupastílskennslu í mínum hlaupahóp fyrir utan þessi fáeinu grundvallaratriði sem felast aðallega í
því að rétta úr sér og lyfta fótunum. Ég hef hvorki þekkinguna né reynsluna og ég hef ekki hugsað
mér að fara út í það. Hins vegar hef ég tröllatrú á stílæfingum og læt fólk gera þær (allt of sjaldan
samt).

Ég hef líka ráðlagt fólki sem hefur átt við meiðsl að stríða að fara til hans Smára í Smart
motion og prófa að læra það sem hann kennir. Maður hefur engu að tapa þegar maður er meiddur
hvort sem er. Í þeim tilfellum sem ég hef náð að fylgjast með árangrinum þá hefur hann verið, ja
ekki bara góður heldur lyginni líkastur.

Mbk,
Bryndís Baldursdóttir
Leiðbeinandi hópsins Bíddu aðeins

 

More in this category: Sigurður Júlíusson »